Slökkviliðsmenn hafa lokið hreinsunarstarfi í Sunnulækjarskóla á Selfossi en mikill vatnsleki varð í húsinu í nótt og var skólastarf hjá 5.-10. bekk fellt niður í dag vegna þess.
„Það eru nokkur hitablásarakerfi í húsinu, í tæknirýmum inni í húsi og í skúrum uppi á þaki. Það gaf sig element í einni af þessum stæðum uppi á þaki, þannig að það lak vatn ofan í loftræstikerfið og síðan eins og það liggur eftir húsinu,“ segir Hermann Örn Kristjánsson
„Ég fékk símtal frá Öryggismiðstöðinni klukkan 6 í morgun um að það væri skynjarar að pípa og fulltrúi frá þeim fór í kjölfarið á staðinn og lét okkur vita að það læki úr loftunum. Slökkviliðið var kallað út í framhaldinu og þeir voru rosalega flottir, með góðan búnað og unnu vel úr þessu,“ segir Hermann en hreinsunarstarfi var lokið um klukkan 10.
Stórtjón á hitablásarakerfinu
Vatn lak niður um loftið á nokkrum stöðum í húsinu en mest á báðum hæðum í þeim hluta sem nefnist Múli og var efri hæðin þar alveg á floti.
„Það er tjón á loftaplötum í kerfislofti en ég held að gólfin hafi sloppið að mestu leiti. Hér eru hitablásarar og þurrkarar í gangi og það þarf að skoða milliveggi þegar búið að er að þurrka. Mesta tjónið er hins vegar í þessu elementi uppi á þaki, það er stórtjón og kostnaðarsamt,“ segir Hermann.
Hvað næstu daga í skólanum varðar segir Hermann að óljóst sé hvort hægt verði að halda úti hefðbundnu skólastarfi fyrir 5.-8. bekk á mánudaginn.
„Það lak svo mikið ofan í rafmagnstöflu fyrir þessi svæði að það er tvísýnt hvort hún virki þegar búið er að þurrka. Það skýrist líklega ekki fyrr en á mánudagsmorgun og við munum upplýsa foreldra í þessum bekkjum um það klukkan 7 á mánudag hvernig skólastarfinu verður háttað.“