Gengið hefur verið frá samkomulagi milli Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar vegna eigendaskipta á sundlauginni í Þjórsárdal.
Samkomulagið felur í sér yfirtöku sveitarfélagsins á sundlauginni af Landsvirkjun án greiðslu.
Að sögn Gunnars Arnar Marteinssonar oddvita stóð til að Landsvirkjun lokaði lauginni og var jafnvel rætt um að moka yfir hana. ,,Okkur fannst það ótækt enda kemur mikill fjöldi ferðamanna þangað,“ sagði Gunnar.
Samkomulegið felur í sér að Landsvirkjun skilar lauginni í rekstrarhæfur ástandi sem þýðir að Landsvikjun mun kosta lagningu rafmagns að lauginni og einnig þarf að bora eftir köldu vatni. Ekki liggur fyrir hve mikil kostnaður hlýst af því.
Laugin var lokuð í fyrrasumar en að sögn Gunnars er stefnt að því að byggja upp ferðatengda þjónustu við sundlaugina og jafnvel bjóða upp á gistingu. ,,Um 40 þúsund manns koma inn að Stöng á sumrin og þetta er mikið ferðamannasvæði sem við viljum efla,“ sagði Gunnar.