Grímsnes- og Grafningshreppur hyggst kaupa báðar húseignirnar á Borg, þ.e. skólann og stjórnsýsluhúsið og sundlaugina og íþróttahúsið.
Þetta var ákveðið í kjölfar þess að hluthafafundur Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. (EFF) ákvað fyrir skemmstu að veita stjórn félagsins leyfi til að leita leiða til að bjóða hluthöfum félagsins að kaupa leigueignir sínar.
Gunnar Þorgeirsson, oddviti sveitarfélagsins, segir að enn sé ekki fullljóst með hvaða hætti þetta gæti orðið. Stjórn EFF vinnur að því að semja við lánadrottna en Gunnar sagði að leiðir s.s. að sveitarfélög innleysi eign sína og yfirtaki lán á viðkomandi húsnæði hugnist alveg sveitarstjórninni en hún hafi samþykkt að vera í samfloti með öðrum eigendum EFF við úrlausn málsins.
Skv. ársreikningi 2009 nemur skuldbinding sveitarfélagsins vegna þessara tveggja húseigna um 700 miljónum króna. Samningaumleitanir tefjast hinsvegar vegna mikillar skuldsetningar eigna annarra félaga, svo sem sveitarfélagsins Álftaness og Háskólans í Reykjavík.