Bólusetning gegn sumarexemi í íslenskum hrossum er nú að hefjast í fyrsta skipti en helmingur allra hrossa sem eru flutt úr landi fær exem.
Sunnlenskir hestamenn hafa styrkt tilraunir gegn exeminu um sex milljónir króna. Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, ónæmisfræðingur hjá tilraunastöðinni á Keldum, segir að sumarexem sé ofnæmi í hrossum fyrir biti smámýs sem lifir ekki á Íslandi.
Folöld, sem eru bitin fyrsta sumarið, mynda ónæmi fyrir mýinu en íslensku hestarnir lenda ekki í því fyrr en þeir hafa verið fluttir út og eru því sérstaklega næmir. Um það bil helmingur útfluttra hesta fær af þessum sökum sumarexem.
Sigurbjörg tók í gær við sex milljón króna styrk til rannsókna á sumarexemi á ræktunarsýningu Hrossaræktunarsamtaka Suðurlands í gærkvöldi. Hún segir að þetta sé andstyggilegur sjúkdómur að fá og vont fyrir hrossin.
Nú sé í fyrsta sinn að hefjast bólusetning við sjúkdómnum og bindur Sigurbjörg miklar vonir við hana.
Sveinn Steinarsson, formaður Hrossaræktarsambands Suðurlands, segir að það standi hrossaræktunarmönnum mjög nærri að efla rannsóknir á þessu sviði og því hafi verið sjálfsagt að veita þennan rausnarlega styrk. Úr því að samandið hafi bolmagn til þess renni mönnum blóðið til skyldunnar, ekki síst í ljósi þess að rannsakendur hefðu að öðrum kosti staðið frammi fyrir fjárþurrð
RÚV greindi frá þessu