Það sem af er marsmánuði hefur umferðin á Þjóðvegi 1 dregist saman um tæp 42 prósent á Mýrdalssandi miðað við sama tíma í fyrra.
Víða annarsstaðar á landinu er samdrátturinn 20-25 prósent. Vestan Hvolsvallar hefur umferðin minnkað um rúm 28% miðað við sama tíma um fyrra og á Hellisheiði um rúm 24%.
Dagana 1.-23. mars 2019 fóru 28.572 bílar um Mýrdalssand en á sama tíma í ár voru þeir 16.653. Vestan Hvolsvallar voru 80.312 bílar á ferðinni í fyrra en 57.772 í ár. Á Hellisheiði fóru 191.962 bílar yfir heiðina 1.-23. mars í fyrra en 145.599 í ár.
Í frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar segir að þessi gríðarlegi samdráttur skýrist auðvitað að mestu af COVID-19 og snarfækkun ferðamanna en telja verður líka líklegt að slæmt veður undanfarnar vikur spili líka inn í. Þannig leggst allt á eitt.
Þetta er mun meiri samdráttur en á höfuðborgarsvæðinu eða um tvöfalt meiri.