Hrunamannahreppur hyggst kæra ákvörðun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til ráðherra ferðamála, en sjóðurinn hafnaði beiðni hreppsins að ráðstafa hluta styrks vegna Hrunalaugar til stækkunar bílastæðis á svæðinu.
Málið var rætt á síðasta fundi sveitarstjórnar og þar kom fram að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hafi hafnað beiðni sveitarfélagsins og landeiganda að gera minniháttar breytingar á ráðstöfun styrks úr sjóðnum vegna Hrunalaugar.
Hrunamannahreppur fékk í mars síðastliðnum 2 milljónir króna í styrk til að endurhlaða steinveggi í efri hluta Hrunalaugar og byrja á stígagerð frá bílastæði að Hrunalaug í þeirri gönguleið sem nú þegar er fyrir hendi.
Beiðni hreppsins laut að því að fara fram á að færa hluta styrks vegna stígagerðar yfir í stækkun bílastæðis en ófremdarástand hefur skapast þar sem bílum hefur verið lagt á þjóðveginum og utan núverandi bílastæðis.
Sveitarstjórn lýsir furðu sinni á því að ekki sé hægt að bregðast við aðkallandi aðstæðum sem koma upp og ósveigjanleika sjóðsins og bendir á að hvorki landeigandi né sveitarfélagið hafi beina hagsmuni eða tekjur af því að fá ferðamenn í Hrunalaug. Verið sé að bregðast við gríðarlegum ágangi ferðamanna sem skaðað hefur umhverfi svæðisins og truflar almennt aðra nágranna Hrunalaugar.
„Styrkur til Hrunalaugar er skilgreindur sem verndaraðgerð og því óskiljanlegt að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða stuðli að því að koma í veg fyrir nauðsynlegar aðgerðir,“ segir í bókun sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn samþykkti að fela Jóni G. Valgeirssyni, sveitarstjóra, að kæra ákvörðun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til ráðherra ferðamála.