Miklar fjárfestingar eru áætlaðar í Hrunamannahreppi á þessu ári og ein þeirra er möguleg lagning kaldavatnsveitu frá Blákvísl á Hrunamannaafrétti.
Verkefnið var kynnt af veitustjóra á íbúafundi í desember en um er að ræða umtalsverða fjárfestingu í ekki fjölmennara samfélagi. Það liggur þó fyrir að vöntun verður á köldu vatni, ekki síst vegna mikilla umsvifa og framkvæmda í sveitarfélaginu sem nú eiga sér stað og allt útlit er fyrir að verði áfram.
Innviðir kosta sitt
„Innviðir skipta miklu máli en kosta sitt. Hrunamannahreppur vill halda áfram að þjónusta íbúana með nægu neysluvatni og því þarf aukið magn til að takast á við framtíðina,“ segir Jón Bjarnason, oddviti, í samtali við sunnlenska.is.
„Það skiptir miklu máli þegar stórar fjárfestingar eru í deiglunni að vanda sig vel og taka ígrundaðar ákvarðanir á grunni gagna og áætlana. Verkefnastjórn er mikilvæg og ekki síður kostnaðaráætlanir unnar af fagfólki,“ segir Jón ennfremur og bætir því við að sveitarfélagið búi yfir sterkum innviðum og ætli áfram að þjónusta íbúa með miklum gæðum og hóflegum álögum.
Blákvísl er stór og mikil uppspretta ferskvatns framarlega á Hrunamannaafrétti en áætlað er að lögnin frá henni muni liggja 37 kílómetra leið niður á Flúðir.
Guðmundur stýrir verkinu og Guðmundur hannar veituna
Í síðustu viku var farið yfir Blákvíslarveitu á fundi veitu- og framkvæmdanefndar Hrunamannahrepps. Guðmundur Daníelsson mætti á fundinn og fór ásamt veitustjóra yfir fyrirkomulag næstu mánaða. Guðmundur mun stýra verkinu og halda utan um alla ferla þess ásamt veitustjóra. Í byrjun felst verkefnið í að taka saman öll gögn málsins, svo að kjörnir fulltrúar geti tekið góða og upplýsta ákvörðun um jafn stóra framkvæmd og um ræðir.
Guðmundur Hjaltason hjá Eflu sér um hönnun veitunnar og er sú vinna þegar komin af stað, þó ýmis tæknileg atriði standi enn út af borðinu.