Á fundi sínum í gær tók sveitarstjórn Hrunamannahrepps fyrir umsagnarbeiðni frá Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga.
Þar er lagt til að ákvæði um lágmarksútsvar sveitarfélaganna verði afnumið.
Sveitarstjórn Hrunamannahrepps lýsir andstöðu sinni við þessa breytingu og telur að með henni geti orðið til sveitarfélög sem verði skattparadísir á grundvelli tekna þeirra vegna annarra og sérstakra þátta. Slíkt geti orðið til þess að t.d. fámenn sveitarfélög sem bjóða upp á litla uppbyggingu eða þjónustu en eru háð nágrannasveitarfélögum um slíkt, geti samt boðið íbúum sínum skattafríðindi sem önnur sveitarfélög geti engan vegin keppt við.
„Sveitarstjórn telur að slíkar skattaparadísir gangi gegn réttlætiskennd Íslendinga,“ segir í bókun sveitarstjórnarinnar.