Héraðsþing Héraðssambandsins Skarphéðins samþykkti samhljóða ályktun þar sem frumvarpi sem liggir fyrir Alþingi um aukið aðgengi almennings að áfengi er harðlega mótmælt.
Á þinginu, sem haldið var í Hveragerði síðastliðinn laugardag, var lögð fram ályktun um málið sem var samþykkt samhljóða.
„Þing HSK minnir á að Landlæknisembættið mælir gegn frumvarpinu í heild sinni. Þing HSK hvetur þar með alþingismenn til þess að hafna með öllu frumvarpi um sölu áfengis í matvöruverslunum. HSK minnir á forvarnargildi þeirrar staðreyndar að aðgengi að áfengi sé takmarkað,“ segir meðal annars í ályktuninni.
HSK er samband 58 ungmenna- og íþróttafélaga á Suðurlandi og telur sambandið um 19.500 félagsmenn. Í fréttatilkynningu frá HSK segir að í krafti þess fjölda sé vonast til þess að alþingismenn taki tillit til ályktunarinnar í meðhöndlun Alþingis á þessu frumvarpi.