Heilbrigðisstofnun Suðurlands var á meðal þeirra sem hlutu styrk á dögunum þegar heilbrigðisráðherra úthlutaði 55 milljónum króna til 18 verkefna á sviði gæða- og nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Verkefnin hafa öll að markmiði að bæta þjónustu við notendur og stuðla að greiðara aðgengi með stafrænum lausnum.
HSU fékk 4 milljón króna styrk fyrir verkefnið Notkun erkitýpu-sjúklinga til greiningar á stöðu bráðaþjónustu á Suðurlandi.
Markmið verkefnisins er að greina styrkleika og áskoranir við veitingu bráðaþjónustu á þjónustusvæði HSU. Sérstaklega verður litið til landfræðilegra áskorana á stöðum eins og Höfn og Vestmannaeyjum, ásamt dreifbýlis með mikilli ferðamannaþjónustu líkt og Öræfasveit.
Hægt að kortleggja hvort þörf sé á breytingum
Notkun erkitýpa við greiningu á ferlum í þjónustu er vel þekkt og talin ein öflugasta leiðin til að skilja mismun í þjónustu milli hópa og staða. Slík greining hefur ekki farið fram áður á Íslandi í bráðaþjónustu og gæfi greinargóða mynd á þær áframhaldandi áskoranir bráðaþjónustu ásamt því að verkefnið nýtist sem fyrirmynd fyrir landið allt.
Með því að greina ferla verkefnisins í umdæmi HSU verður hægt að kortleggja með góðum hætti hvort þörf sé á breytingum á skipulagi starfseminnar eða hvort og hvernig hægt sé að styrkja starfsstöðvarnar við sínar áskoranir við veitingu bráðaþjónustu.