Heildarverðmæti gjafa sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands fékk frá einstaklingum og félagasamtökum á síðasta ári nam rúmum sjö milljónum króna.
Meðal gjafa sem bárust í fyrra voru samtals 800 þúsund króna peningagjafir frá Kvenfélagi Selfoss til kaupa á blöðruspeglunartæki og fæðingarrúmi, gulumælir frá Sambandi sunnlenskra kvenna að verðmæti rúmlega 1 milljón króna og hjartalínuritstæki frá Lionsklúbbi Hveragerðis að verðmæti tæplega 500 þúsund króna. Einnig gaf Kvenfélag Biskupstungna eyrnaþrýstingsmæli að verðmæti 715 þúsund krónur.
Þá gaf Arionbanki HSu 2,5 milljónir króna til eflingar tækjabúnaðar fyrir göngudeild lyflækninga. Lionsklúbburinn Emblur gaf fimmtíu handgerða bangsa frá VISS til sjúkraflutninganna og Oddfellowreglan Þóra gaf kapellu HSu nýjan altarisdúk úr hör, svo eitthvað sé nefnt.