Heilbrigðisstofnun Suðurlands mun flytja heilsugæsluna í uppsveitum Árnessýslu frá Laugarási að Flúðum vorið 2025. HSU mun leigja húsnæði af Hrunamannahreppi við Hrunamannabraut 3.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, segir að þetta sé gert í ljósi stöðugrar uppbyggingar og fjölgunar íbúa í uppsveitunum. Staðsetningin á Flúðum leggi jafnframt grunn að frekari þjónustutækifærum, þar á meðal möguleika á opnun nýs apóteks.
Í janúar síðastliðnum auglýsti FSRE eftir húsnæði til að hýsa heilsugæslu HSU í uppsveitum Suðurlands og bárust þrjú tilboð. Eftir ítarlegt mat á tilboðunum var ákveðið að ganga til samninga við Hrunamannahrepp en húsnæðið verður sérhannað til að mæta nútímakröfum heilbrigðisþjónustu.
„Þetta framfaraskref er liður í stefnu HSU um að tryggja að íbúar í uppsveitum Suðurlands hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum nútímans. Með því að flytja heilsugæsluna á Flúðir er HSU ekki eingöngu að bæta aðstöðu heilbrigðisþjónustunnar, heldur er einnig verið að skapa öflugri grunn fyrir framtíðarþróun heilbrigðisþjónustu HSU í uppsveitum Suðurlands,“ segir Díana.