HSu greiðir kjarabætur úr eigin vasa

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur þurft að greiða launahækkanir vegna kjarasamninga án þess að hafa fengið auknar fjárheimildir til þess ríkinu.

Ljóst er að kostnaður fyrir sjúkrahúsið vegna kjarasamninganna verður yfir 23 milljónum króna.

Esther Óskardóttir, skrifstofustjóri HSu, segir ástandið mjög slæmt. Ekkert svigrúm sé í fjármálunum. Stjórn HSu hefur átt í viðræðum við velferðarráðuneytið til að fá leiðréttingu á fjárheimildunum en nú er beðið svars frá fjármálaráðuneytinu um hvenær greiðslur fáist til sjúkrahússins. Óvíst er þó hvort nokkur greiðsla fáist í ágúst frá ríkinu.

Esther segir að stofnunin hafi þó fengið 6,2 milljóna greiðslu en meira fáist ekki í bili þar sem gerð er krafa um að sjúkrahúsið megi ekki vera komið um of umfram fjárheimildir. Stofnunin var rekin á réttu róli fyrstu mánuði ársins segir Esther, og vel er fylgst með fjármálum hennar af hálfu velferðarráðuneytisins.

Launahækkanir og óvenju mikil veikindi starfsfólks hafa þó gert stofnuninni erfitt um vik rekstrarlega og ástandið versnaði til muna í maí og júní. HSu hefur brugðið á það ráð að koma sér upp yfirdráttarreikningi þrátt fyrir að hafa ekki heimild til þess því það er mat stofnunarinnar að sú leið sé farsælust í þessum tímabundnu hremmingum, að sögn Estherar.

Fyrri greinSorphirðukostnaður hefur lækkað um 25%
Næsta greinBjarni Hlynur ráðinn