Verið er að undirbúa Heilbrigðisstofnun Suðurlands undir það að sjúklingar sem ekki eru með COVID-19 verði fluttir af Landspítalanum þangað, til að létta undir með spítalanum.
Greint var frá þessu í hádegisfréttum RÚV.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, segir í viðtali við RÚV að gríðarlegt álag sé á stofnuninni. Opnuð hefur verið deild á HSU þar sem öll starfsemi tengd COVID-19 fer fram. Þar eru tekin sýni og hægt að leggja inn fimm sjúklinga.
„Eins og þetta er núna þá leggjast allir inn á Landspítalann sem þurfa á því að halda. Við erum að undirbúa að geta létt undir, tekið þá kannski aðra sjúklinga til okkar og eins að leggja inn á þessa lokuðu deild ef með þarf. Við erum ekki með þennan rúmafjölda en við munum gera það sem við getum til þess að taka á móti sjúklingum,“ sagði Díana í samtali við RÚV.
Staðfest smit eru nú orðin 963 á Íslandi, þar af 102 á Suðurlandi og nú eru 1105 í sóttkví á Suðurlandi.