Landvernd leitar nú eftir hugmyndum félagsmanna og almennings um hvernig nýta megi jörðina Alviðru í Ölfusi í þágu náttúru- og umhverfisverndar.
Alviðra hefur verið sameiginleg eign Landverndar og Héraðsnefndar Árnesinga frá 1. febrúar 1973 þegar Magnús Jóhannesson, bóndi, afhenti þeim jörðina til eignar. Jörðinni fylgdu kvaðir um að ekki mætti skipta jörðinni upp undir sumarhús og að hún yrði nýtt til landgræðslu og náttúruverndar.
Nú er leitað að hugmyndum þannig að ákvæði Magnúsar séu virt. Hugmyndirnar þurfa að vera raunhæfar og sýna þarf fram á sannfærandi rekstrargrunn.
Þátttaka í hugmyndaleitinni er auðveld og opin öllum og viðurkenningar verða veittar. Á vef hugmyndasamkeppninnar er hægt að nálgast lýsingar á jörðinni Alviðru og húsakosti þar og allar nauðsynlegar upplýsingar um fyrirkomulag hugmyndaleitarinnar og leikreglur sem þátttakendur þurfa að kynna sér.
Hugmyndum á að skila í síðasta lagi föstudaginn 14. apríl næstkomandi.
Þar sem Alviðra er í útleigu eru áhugasamt fólk beðið að sýna tillitssemi og ganga ekki á gestrisni íbúa utan skipulagðra skoðunartíma. Opið hús verður í Alviðru sunnudaginn 26. mars kl. 13-16. Þeir sem hyggjast nýta sér opið hús verða að skrá sig á skraning@landvernd.is fyrir 25. mars.