Björn Jóhannsson, landslagsarkitekt hefur óskað eftir plássi á Hellu fyrir smáhúsahverfi sem ætlað er fyrir starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækja, ungt fólk og fleiri sem kjósa minna húsnæði.
Húsin yrðu innan skika þar sem sameiginleg aðstaða yrði til þvotta og annars, sem alla jafna er hluti af íbúðarhúsum.
„Við tókum eftir því að víða vantar lítil vönduð einbýlishús, og þarna er upplagt tækifæri,“ sagði Björn í samtali við Sunnlenska. Hann hefur rætt við ferðaþjónustuaðila í kring og í máli þeirra kemur fram að skortur sé á litlu en hentugu plássi fyrir starfsfólk, sem og ýmsa fagaðila í iðnaði og fleiru. Til greina kæmi að leita til fyrirtækja í grennd um samstarfs.
Sveitarstjórn Rangárþings ytra fjallaði um málið á fundi sínum í vikunni og bókaði að hugmyndin væri afar áhugaverð. Skipulags- og byggingafulltrúa ásamt sveitarstjóra var falið að gera tillögu um mögulega staðsetningu fyrir slíkt smáíbúðahverfi og vinna hugmyndina áfram í samstarfi við höfundana.