Flugeldasala björgunarsveitanna hófst í gær og hjá Hjálparsveit skáta í Hveragerði horfa menn bjartsýnir til næstu daga.
Sjálfboðaliðar sveitarinnar hafa unnið dag og nótt við undirbúning sölunnar enda er flugeldasalan lang stærsta fjáröflun sveitarinnar og stendur undir stórum hluta af rekstri þeirra yfir árið.
Ofan í þennan undirbúning hafa Hvergerðingarnir síðan þurft að sinna nokkrum óveðursútköllum, flestum vegna ófærðar á Hellisheiði.
Að sögn Lárusar Kristins Guðmundssonar, formanns HSSH, hefur sveitin verið kölluð út nálægt sextíu sinnum á árinu en sá fjöldi útkalla jafnast á við útkallafjöldann hjá stærstu björgunarsveitunum í Reykjavík. Álagið sé þess vegna oft mikið á mannskapinn en liðsmenn sveitarinnar eru boðnir og búnir að sinna útköllum 24 tíma á sólarhring alla daga ársins.
Lárus segir að vöruúrvalið í flugeldasölunni sé mikið eins og ýmsar nýjar eða endurbættar vörur séu að koma inn frá fyrra ári.