Hulda Rós stefnir á 6. sætið

Hulda Rós Sigurðardóttir, meistaranemi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, gefur kost á sér í 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.

Hulda Rós er 26 ára og fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði. Hún er meistaranemi í opinberri stjórnsýslu en ásamt því hefur hún áður klárað meistarapróf í hagnýtri menningarmiðlun. Meðfram náminu hefur hún starfað í Sparisjóðnum á Höfn, sinnt ýmsum félagsstörfum, ásamt því að gegna trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þá hefur hún starfað í funda- og menningardeild Heimdallar og er stjórnarmaður í Skaftfellingi, félagi ungra sjálfstæðismanna á Höfn. Einnig er hún varaformaður Herjans, félagi stúdenta við Háskóla Íslands á móti ESB. Þá hefur hún mikinn áhuga á og starfað við uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu á Hornafirði.

„Eftir að ég ákvað að starfa af auknum krafti í stjórnmálum, hefur áhugi minn vaxið gríðarlega á stuttum tíma. Við þurfum ungt fólk inn í stjórnmál og ekki síst fólk með menntun, reynslu og víðsýnar skoðanir sem vill vinna fyrir almannahag af einlægni og dugnaði,” segir í tilkynningu frá Huldu Rós.

„Á þessum tímapunkti er mikilvægt að stuðla að framförum í samfélaginu og setja mikilvæg mál í forgang. Ég mun beita mér fyrir því að innan stjórnsýslunnar séu teknar skynsamlegar og vel ígrundaðar ákvarðanir og vil ég vinna faglega að fyrirliggjandi verkefnum. Það er að mínu mati röng stefna að hækka gjöld og skatta til þess að eiga tekjur í ríkissjóði fyrir ýmis gæluverkefni sem gagnast þjóðinni á takmarkaðan hátt. Mér er umhugað um það að Ísland verði ekki aðildarríki að Evrópusambandinu og að sá möguleiki verður athugaður að stöðva umsóknarferlið sem fyrst eða lágmarka þann fjárhagslega skaða sem skattgreiðendur hafa nú þegar orðið fyrir vegna aðildarviðræðanna.

Þá þarf hugsunarhátturinn í samfélaginu að breytast og efla þarf traust kjósenda til stjórnmálamanna á ný. Það gerist ekki með því að auka skatta á einstakar atvinnugreinar og auka útgjöld millistéttarfólks í landinu ásamt því að ungt fólk sér ekki annan valkost en að flýja land vegna of hás verðlags og lélegra launa eftir nám. Ég tel að hræðsluáróður og niðurrifsstarfsemi núverandi ríkistjórnar sé alvarlegt mál, þar sem allt virðist ganga út á að telja Íslendingum trú um það að þeir séu hjálparvana. Að stjórnarskrá okkar sé léleg og við eigum okkur enga von nema að ganga í Evrópusambandið. Ég vil snúa þessum hugsunarhætti við vegna þess að við, sem vel menntuð þjóð með mikilvægar auðlindir sem hefur fjölmörg tækifæri á sviðum alþjóðasamskipta, erum full fær um að auka okkar velferð sem sjálfstætt og fullvalda ríki.

Ég hef mikinn áhuga á að starfa í pólitík vegna þess að ég vil hafa áhrif. Ég mun beita mér fyrir því að efla uppbyggingu, bæta stjórnsýslustigið, styðja við einkaframtakið og stuðla að auknu frelsi einstaklingsins til athafna. Fólkið í landinu á að njóta góðs af eigin þjóðarframleiðslu. Við ættum með réttri hagstjórn, sem einkennist af faglegum ríkisrekstri og atvinnuskapandi einkaframtaki að getað lifað góðu lífi. Það veltur á þeim sem stjórna í landinu að fara vel með skatttekjur og um leið efla stjórnsýslustigið og auka velferð. Ég er stolt af því að starfa fyrir kjördæmið og flokkinn en umfram allt væri það mér heiður að fá í framtíðinni að starfa fyrir fólkið í landinu,” segir Hulda Rós ennfremur.

Fyrri greinSunnlenskir Neyðarkallar að störfum
Næsta greinPólskur menningardagur í Tryggaskála