Hundar æfðu þyrlusig

Síðastliðinn laugardag stóð Landsbjörg fyrir útkallsæfingu á Eyrarbakka þar sem tóku þátt Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka, Björgunarhundasveit Íslands, bátahópur HSG og þyrla LHG.

Unglingadeildin á Eyrarbakka var einnig með í æfingunni en um 20 meðlimir hennar léku „týnda“ einstaklinga, m.a. í sjóvarnagarðinum, úti á skerjum og í kringum Eyrarbakka og Stokkseyri. Nota þurfti báta til að ferja leitarhunda á suma leitarstaðina. Átta hundateymi, víðsvegar að af landinu, tóku þátt í æfingunni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á staðinn og æfði hífingar úr sjó og eins fengu allir hundar að síga með eigendum sínum en mikilvægt er að venja þá við fjölbreyttar aðstæður er upp geta komið í leit.

Þar sem æfingin fór að hluta til fram innanbæjar vakti hún mikla athygli og voru margir sem fylgdust með. Vilja stjórendur æfingarinnar koma á framfæri þakklæti til allra er tóku þátt, ekki síst unglinganna sem stóðu sig frábærlega sem og áhöfn þyrlunnar.

Myndirnar tók Linda Ásdísardóttir

bjorgun_sig151011la_611595434.jpg

Fyrri greinStungið á bíldekk á Selfossi
Næsta greinNúmi Snær varði titilinn