Verslunin Ós í Þorlákshöfn lokaði þann 2. október síðastliðinn, sléttum 50 árum eftir að Franklín Benediktsson kaupmaður hóf verslunarrekstur í Þorlákshöfn. Hundruðir kvöddu Franklín og konu hans, Hallfríði Höskuldsdóttur, á þessum tímamótum.
Jónas Sigurðsson, tónlistarmaður, var hvatamaður að viðburðinum en hann kastaði hugmyndinni fram á Facebook og er óhætt að segja að hún hafi blómstrað á skömmum tíma. Rúmum sólarhring síðar hafði fjöldi fólks lagt lóð sín á vogarskálarnar svo að úr varð glæsileg og fjölmenn kveðjuhátíð.
„Ég setti þetta fram á Facebook og það sem varð úr því var svo ótrúleg sprengja. Það var magnað að sjá að á tíu mínútna fresti voru einhverjir nýir búnir að melda sig inn. Kiwanismenn, leikfélagið, lúðrasveitin, sveitarfélagið… og allir sögðu, já, auðvitað! Þetta er snilld. Þetta segir manni hversu fallegt og dýrmætt þetta samfélag er,“ sagði Jónas áður en hann steig á stokk með Lúðrasveit Þorlákshafnar.
Jónas og lúðrasveitin spiluðu nokkur lög, Leikfélag Ölfuss flutti atriði, Karl Sigmar Karlsson rifjaði upp gamlar sögur tengdar Franklín og Kiwanismenn grilluðu pylsur ofan í gesti og skutu upp flugeldum. Franklín og Haddý voru líklega einir af síðustu kaupmönnunum á horninu á landsvísu og það kom greinilega í ljós á kveðjustundinni að verslunin átti sinn stað í hjarta bæjarbúa.
Í lok dagskrárinnar færði sveitarfélagið hjónunum gjöf með þakklæti fyrir árin fimmtíu og þau Franklín og Haddý þökkuðu fyrir sig. Reyndar viðurkenndi Haddý að hún væri svo klökk á þessari stund að hún gæti varla talað.
Hér að neðan eru nokkrar myndir frá samkomunni.
Allar myndir Ⓒ Guðmundur Karl