Fjölmargir ferðamenn sem hafa farið að Gullfossi í vetur hafa hunsað lokun og gulan borða lögreglunnar þar sem bannað er að fara niður stíginn vegna hálku og annarra atriða sem snúa að öryggi fólks.
„Lögregla hefur heimild til að banna umferð á ákveðnum svæðum samkvæmt lögreglulögum, t.d. felst í því að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau og fólki ber skylda að hlýða fyrirmælum lögreglu,“ segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Vegna fjölda verkefna hjá lögreglunni þarf hún að forgangsraða verkefnum og getur ekki fylgst með því hverjir fara yfir gula borðann við Gullfoss.
Þorgrímur Óli minnir á að viðurlög við því að fara ekki að fyrirmælum lögreglu varðar sektum að lágmarki tíu þúsund krónum.