„Ísbúð er nokkuð sem fólk tengir sterkt við Álfheimana og finnst ekki mega missa sín. Við höfðum lengi haft í huga að færa út kvíarnar og þegar ísbúðin þar var föl gripum við tækifærið.“
Þetta segir Gunnar Már Þráinsson, einn eigenda ísbúðarinnar Huppu, í samtali við mbl.is en Ísbúð Huppu hefur nú verið opnuð í Álfheimum í Reykjavík.
Nokkur ár eru síðan Huppa á Selfossi var opnuð og hafa viðtökurnar þar verið mjög góðar. Gunnar Már og hans fólk vildu byggja á því og horfðu til Reykjavíkur, því vel hefur gengið hjá Huppu á Selfossi þar sem fólk, til dæmis úr Reykjavík, stoppar gjarnan og fær sér ís.
Eigendur Huppu eru tvö pör á Selfossi, þau Eygló Rún Karlsdóttir og Sverrir Rúnarsson – og Telma Finnsdóttir og Gunnar Már.
„Konurnar sjá alfarið um þennan daglega rekstur og við Sverrir erum bara í því að skipta okkur af,“ segir Gunnar Már í viðtali við mbl.is.