Hurðin farin að snúast

Hurðin er farin að snúast í glæsihýsinu við Suðurlandsveg 1-3 á Hellu og kúnnarnir streyma inn og út.

Húsið er reyndar fullkomlega ómerkt að utan og því ekkert sem bendir til að þar sé hafin einhverskonar verslunarstarfsemi. En þegar inn er komið blasir við glæsileg aðstaða og gómsætar kökurnar í bakaríinu Kökuvali sem hóf starfsemi þar um miðjan mánuðinn.

Ómar Ásgeirsson, sem hefur ásamt konu sinni, Ástu Halldórsdóttur, rekið Kökuval á Hellu allt frá árinu 1992 segir mikla breytingu í því fólgna að vera nú loks búinn að opna.

„Já, það virðist almenn ánægja með þetta, það var að minnsta kosti biðröð útúr dyrum allan daginn á fyrsta
opnunardegi,“ segir Ómar. Löng hefð er fyrir rekstri bakarís á Hellu, sem hefur verið rekið þar frá 1948. „Nokkuð merkilegt í ekki stærra bæjarfélagi.“

Og það voru ekki bara kúnnarnir sem voru búnir að bíða, því hann hafði sjálfur beðið nokkuð lengi eftir að
komast inn í húsið, sem upprunalega stóð til að opna á vormánuðum 2010.

„Öll innréttingin hefur beðið hér í eitt og hálft ár eftir því að vera sett upp,“ segir Ómar. En opnun hússins hefur dregist eins og þekkt er. Hann segir nýja staðsetningu eflaust gjörbreyta rekstrinum, og nú hefur hann súpu og létta rétti, smurt brauð og pasta í hádeginu og talsvert hefur verið að gera dagana frá opnun.

Ómar segir þau bíða spennt eftir nýjum nágrönnum í húsnæðið. Til stendur að Lyf og heilsa færi sig til í svæðið inn af bakarínu. „Það verður líkast til upp úr næstu mánaðarmótum,“ segir Ómar. „Svo vonumst við til að sjá Vínbúð ÁTVR hér innan tíðar,“ segir hann, en ekki er vitað hvenær verður af því.

Fyrri greinSelfyssingar segja sig úr óeirðalögreglunni
Næsta greinJarðskjálftasýningin opnuð