Kona var flutt á slysadeild Landspítalans eftir að lítið íbúðarhús á Stokkseyri eyðilagðist í eldsvoða í nótt.
Neyðarlínan fékk tilkynningu um eldinn laust fyrir klukkan hálfsex í morgun og fóru tuttugu slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi og í Hveragerði á vettvang. Auk þess var óskað eftir aðstoð frá slökkviliðsmönnum BÁ frá Laugarvatni þegar leið á morguninn og skipta þurfti út þreyttum slökkviliðsmönnum.
Konan var ein í húsinu og komst út af sjálfsdáðum.
Mikill eldur var í húsinu þegar slökkviliðið kom á vettvang. Slökkvistarf gekk vel en húsið er mikið brunnið og allt innanstokks ónýtt.
Þar sem húsið er gamalt og einangrað með heyi að hluta geta glæður leynst inni í veggjum og þaki. Því munu slökkviliðsmenn verða við vinnu í húsinu fram eftir degi.
Rannsóknardeild Lögreglunnar á Suðurlandi rannsakar upptök eldsins.
Mikinn reyk lagði frá húsinu þegar slökkviliðið kom á staðinn. sunnlenska.is/Viðar Arason