Rafmagnslaust varð í kvöld á stærstum hluta Suðurlands, frá Flóahreppi og austur í Mýrdal og í Vestmanneyjum eftir að eldingu sló niður á Hvolsvelli um klukkan 22:37.
Í kjölfarið varð bilun er í eldingavara á Hvolsvelli en vegna eldingahættu var ekki hægt að ljúka viðgerð fyrr en þremur tímum síðar. Á flestum stöðum var rafmagn komið á uppúr miðnætti en ekki fyrr en klukkan rúmlega hálf tvö á Hvolsvelli og austar.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti varð útleysing, væntanlega vegna eldinga, sem leiddi til straumleysis út frá Hvolsvallarlínu 1 frá Búrfelli og Vestmannaeyjalína 1 og 2.
Rangæingar urðu varir við mikil læti áður en rafmagnið fór af, eldingu og mjög öfluga þrumu. Íbúar á Hvolsvelli lýstu þrumunni þannig í samtali við sunnlenska.is að tvö eða þrjú gríðarleg högg hafi fylgt henni og íbúðarhúsin hafi nötrað.
UPPFÆRT 23:38: Rafmagn er komið aftur á á Flúðum og í Hrunamannahreppi.
UPPFÆRT 23:58: Bilun er í eldingavara á Hvolsvelli og unnið er að viðgerð.
UPPFÆRT 00:14: Rafmagn er komið á víðast, nema í Rangárþingi eystra og Mýrdalshreppi.
UPPFÆRT 01:07: Unnið er að viðgerð en vegna eldingahættu er óvíst hvenær viðgerð líkur.
UPPFÆRT 01:41: Rafmagn er komið allstaðar á og raforkukerfið komið í eðlilegan rekstur.