Húsfyllir var á sunnudaginn á menningarhátíðinni „Sögur á Bakkanum“ sem haldin var í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka. Um 200 manns fylgdust með dagskránni og þáðu kaffiveitingar sem voru í boði sveitarfélagsins.
Siggeir Ingólfsson, Staðarhaldari á Stað, stjórnaði dagskránni og Kjartan Björnsson, formaður Íþrótta- og menningarnefndar Árborgar, ávarpaði samkomuna.
Kirkjukór Eyrarbakkakirkju söng tvö lög við undirleik Hauks A. Gíslasonar. Lögin voru; Eyrarbakki, lag Hauks A. Gíslasonar við ljóð Óskars Magnússonar og Fuglinn, lag og ljóð Rutar Magnúsdóttur.
Sögur af Bakkanum sögðu Óskar Magnússon fyrrverandi skólastjóri á Eyrarbakka, Eyrbekkingurinn og skáldið Kristján Runólfsson í Hveragerði, Eyrbekkingurinn ungi Sverrir Björnsson og Ásmundur Friðriksson alþingismaður. Hljómsveit hússins lék á milli atriða og féll dagskráin í góðan jarðveg hjá gestum hátíðarinnar.
Myndir frá hátíðinni má sjá á heimasíðunni Menningar-Staður.