Í byrjun vikunnar fóru lögreglumenn frá lögreglunni á Suðurlandi og fíkniefnadeild Lögreglu höfuðborgarsvæðisins í húsleitir á sex stöðum í Rangárvallasýslu vegna gruns um að þar færi fram umtalsverð ræktun á kannabisplöntum.
Leitað var í tveimur niðurgröfnum gámum sem voru þannig útbúnir að búið var að byggja smáhýsi ofan á þá til að fela ummerki um loftræstingu og annað sem tilheyrir ræktun kannabisplantna.
Í gámunum fundust leifar af kannabisafskurði og ummerki um ræktun. Þá var leitað í uppsteyptum kjallara annars óbyggðs sumarhúss og voru sömuleiðis þar ummerki um ræktun kannabisplantna á rúmlega 100 fermetra gólffleti. Einnig var leitað í sumarhúsi og stöðugám þar við. Í sumarhúsinu var ekkert að sjá en í gámnum fundust 15 kannabisplöntur í ræktun.
Loks var leitað á heimili manns sem var handtekinn í tengslum við rannsóknina og framvísaði hann búnaði, við húsleit á heimili hans, tengdum ræktun kannabisplantna. Sá kannaðist við að vera eigandi ræktunarinnar í gámnum við sumarhúsið.
Niðurgröfnu gámarnir tveir og kjallarinn sem leitað var í voru samtengdir með myndavélaeftirlitskerfi.
Tveir voru handteknir í aðgerðunum og var annar þeirra með sýn á myndavélarnar í síma sínum þegar lögregla handtók hann. Hann kvaðst hinsvegar hafa eftirlitshlutverk með höndum hvað eignirnar varðaði og vildi ekki kannast við aðild að ræktununum. Báðum var sleppt að yfirheyrslu lokinni.
Áfram er unnið að rannsókn málsins og gefur lögreglan ekki frekari upplýsingar um það að sinni.