Litlar sem engar líkur eru á að fyrirhugað mjólkursafn verði staðsett að Eyravegi 3 á Selfossi eins og ráðgert var. Við skoðun kom í ljós húsnæðið er í mjög slæmu ástandi.
„Við erum að láta meta það núna hvort það borgar sig að setja peninga í húsið til að koma því í gott stand eða hvort við finnum annað hús í eigu sveitarfélagsins undir starfsemina, þetta skýrist á næstu dögum,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar í samtali við blaðið.
Sunnlenska hefur heimildir fyrir því að gróflega áætlaður kostnaður við að koma húsnæðinu í viðunandi ástand sé um 40 til 50 milljónir króna. Ætlunin var að sveitarfélagið kæmi þar upp mjólkursafni í samstarfi við MS, auk þess sem þar átti að vera upplýsingamiðstöð á vegum Árborgar. Viðræður hafa átt sér stað við líklega rekstraraðila, en eftir því sem næst verður komist mun ólíklegt að starfsemi safnsins hefjist á tilsettum tíma, en upprunalega stóð til að opna safnið og upplýsingamiðstöðina í maí.