Enn hækkar verð á húsnæði á Suðurlandi, og sala heldur áfram að vera mikil. Þó eru merki þess að dregið hafi úr framboði, og segja fasteignasalar sem Sunnlenska ræddi við að nánast allt sé selt sem komið hafi inn á borð þeirra.
Mikil eftirspurn er enn eftir minna húsnæði, einkum par- og raðhúsum. Mest er verðhækkunin í Hveragerði og á Selfossi, en verð heldur líka áfram að stíga í Rangárvallasýslu.
Verð hefur hækkað talsvert minna á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, og minnst er hækkunin á geymsluhúsnæði. Tíðindamenn Sunnlenska á Hvolsvelli segja þó eftirspurn efrir þjónustu- og verslunarhúsnæði en hræðsla sé við að ráðast of hratt í frekari uppbyggingu þess.
Ljóst þykir að breyting íbúðarhúsnæðis í gistihúsnæði fyrir ferðamenn hefur haft áhrif á framboð húsnæðis, og eru talsvert mörg dæmi þess að aðilar sem hafi stærra íbúðarhúsnæði á söluskrá sé ekki mikið að ýta á eftir sölu, þar sem þeir geti haft húsnæðið í útleigu með nokkrum ávinningi. Þetta leiðir til þess að hátt verð er sett á stóru húsin, og eigendur þeirra bíða eftir rétta tilboðinu frekar en að lækka verðið.