Betur fór en á horfðist þegar eldur kom upp í nýlegu sumarhúsi í sumarbústaðalandi við Miðfell, austan Þingvallavatns um klukkan hálftíu í kvöld.
Eldurinn kviknaði út frá kamínu og læsti hann sig meðfram skorsteininum í sperru og þakklæðningu. Húsráðandi náði að halda eldinum í skefjum, reif niður panelklæðningu úr lofti og sprautaði úr slökkvitækjum upp í þakið.
Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Selfossi var það snarræði húsráðanda að þakka að ekki fór miklu verr og aðeins hefði munað nokkrum mínútum að eldurinn hefði breiðst út um þak hússins. Nýbúið var að koma fyrir slökkvitækjum í húsinu, sem er nýbyggt.
Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi rifu frá skorsteininum að innanverðu og fullvissuðu sig um að ekki leyndust glæður í þakefninu.