Erlend ferðakona var flutt með sjúkrabíl til Reykjavíkur í morgun eftir að henni skrikaði fótur svo hún lenti ofan í hver í Grænsdal fyrir innan Hveragerði.
Konan var í hópi erlendra ferðamanna og samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi hlaut hún annars stigs bruna á fæti.
UPPFÆRT 16.4.2012: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu skrikaði konunni fótur með þeim afleiðingum að fóturinn sökk í svörðinn og þar undir reyndist jarðvegurinn sjóðheitur. Undanfarið ár hafa orðið nokkur brunaslys á þessu svæði, oftar en ekki vegna þess að fólk hefur sokkið niðurúr grastorfu þar sem heitt vatn eða leir leyndist undir.