Bæjarstjórn Hveragerðis kannar nú möguleika á milligöngu um rekstur dómsmáls fyrir húseiganda þar sem látið verði reyna á bótarétt á hendur Orkuveitu Reykjavíkur.
Um prófmál er að ræða en að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur bæjarstjóra er um að ræða hagsmuni 80 íbúðaeigenda og gæti kostnaðurinn hlaupið á 40 til 50 milljónum króna.
OR hefur gert þessum íbúðaeigendum að greiða búnað við inntöku heits vatns sem var áður talið að OR ætti að greiða. Að sögn Aldísar á Hveragerðisbær ekki aðkomu að málinu en þar sem hann stóð fyrir sölunni á sínum tíma hefði verið talið rétt að bregðast við með þessum hætti.
,,Það er augljóst að upphæðin sem hér um ræðir var dregin frá kaupverðinu á sínum tíma. Það er þess vegna veik von að bæjarbúar geti sótt rétt sinn,“ sagði Aldís í samtali við Sunnlenska.