„Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu sem kallað hefur bæði þjáningu og eyðileggingu yfir saklaust fólk. Það er skýlaus krafa alþjóðasamfélagsins að hernaðaraðgerðir Rússa verði stöðvaðar nú þegar.“
Þannig hljóða upphafsorð ályktunar sem samþykkt var á síðasta fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar. Á fundinum var samþykkt að Hveragerðisbær taki þátt í móttöku flóttafólks frá Úkraínu og var bæjarstjóra falið að hafa umsjón með viðræðum við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um móttökuna.
„Það er skylda allra að taka þátt í að létta þær byrgðar sem nú eru lagðar á íbúa Úkraínu. Þar verðum við öll að leggjast á eitt. Hvergerðingar skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem felst í því að hlúa að þeim sem nú þurfa að flýja heimili sín og það líf sem fólkið áður þekkti,“ segir í ályktun bæjarstjórnar sem hvetur alla þá sem geta lagt til húsnæði vegna verkefnisins að skrá það inn á island.is.