Sunnudaginn 10. júní kl. 15 mun Erin Honeycutt, annar tveggja sýningarstjóra sýningarinnar „HVER/GERÐI – Sigrún Harðardóttir“ í Listasafni Árnesinga, ganga um sýninguna og ræða við gesti um verkin sem til sýnis eru.
Spjallið fer fram á ensku, en það verður líka túlkur á staðnum.
Líkt og heiti sýningarinnar gefur til kynna þá er viðfangsefni Sigrúnar á sýningunni hverir og gróður, en líka sá tvískilningur að gestir eru líka gerendur. Sjá má hvernig gagnvirkni og skyntækni eru tvinnuð saman og áhorfendum boðið að taka þátt.
Með eigin þátttöku ná þeir að upplifa fjölmarga möguleika þessarar tækni í samspili lita, hreyfinga og hljóðs. Inn á milli gagnvirkra verka og skúlptúrs innsetninga eru líka málverk sem gera áhorfendum kleift að njóta þeirrar fagurfræði sem til verður í umbreytingunni milli hefðbundinna og tæknivæddra mynda.
Erin fædd og uppalin í Bandaríkjunum en hefur búið á Íslandi um árabil. Hún er listfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig í vídeó- og nýmiðlalist. Hún er sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og greinahöfundur og hefur unnið greinaskrif fyrir söfn, gallerí og tímarit á Íslandi og erlendis en þá hefur viðfangsefnið einatt verið íslensk myndlist.
Erin hefur einnig sinnt rannsóknum við Vasulka-stofu Listasafns Íslands og kennt námskeiðið A Survey of Video and Experimental Film í listfræði við Háskóla Íslands. Hún var sýningarstjóri á völdum íslenskum vídeóverkum á Addis Vídeólistahátíðinni í Eþjópíu í janúar 2018 og var aðstoðarsýningarstjóri sýningarinnar Video Art Program sem sett var upp á Keflavíkurflugvelli í desember 2017, en á þeirri sýningu var einmitt verk eftir Sigrúnu Harðardóttur.
Sýningin mun standa til og með 6. ágúst 2018. Safnið er opið alla daga kl. 12-18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir.
Sunday, June 10th at 3 pm, Erin Honeycutt, one of two curators of the exhibition HVER/GERÐI – Sigrún Harðardóttir, will talk to guests while going through the exhibition and discuss the artworks on display. The talk will be in English.