Bæjarráð Hveragerðis hefur samþykkt að bjóða bæjarstjórninni í Ölfusi í heimsókn á næstunni. Í mars verður kosið um það hvort Ölfusingar vilji sameinast Hvergerðingum.
„Við ætlum að bjóða bæjarstjórn Ölfuss í heimsókn til okkar og kynna þeim þær stofnanir sem við rekum sameiginlega og okkar eigin stofnanir, auk þess að fara yfir stöðuna hjá Hveragerðisbæ og spjalla við bæjarfulltrúana á léttum nótum,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hvergerði, í samtali við Sunnlenska.
Hvergerðingar hafa lýst því yfir í skoðanakönnun að þeir vilji sameinast Ölfusi en íbúar í Ölfusi verða spurðir í rafrænni kosningu í mars hvort þeir vilji sameinast Hveragerðingum.
„Ég hef alltaf verið hrifin af Ölfusingum en hvort það verður til þess að sveitarfélögin tvö sameinist eða ekki get ég ekkert sagt um, tíminn einn leiðir það í ljós,“ bætir Aldís við.