Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fagnar nýrri reglugerð um leyfilegan styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti umhverfisráðherra setti nýlega.
Reglugerðin var kynnt á síðasta fundi bæjarstjórnar Hveragerðis. „Með setningu reglugerðarinnar eru ríkir hagsmunir almennings viðurkenndir og einnig viðurkennt að óvissa ríki um heilsufarsáhrif af langvarandi innöndun brennisteinsvetnis. Því er nauðsynlegt að sett séu ákveðin mælanleg mörk þannig að almenningur fái notið vafans,“ segir m.a. í bókun bæjarstjórnar.
Með setningu reglugerðarinnar er tryggt að dregið verði verulega úr losun brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum og þar með mögulegum neikvæðum áhrifum á heilsu fólks.
Sömu reglugerð var fagnað á fundi skipulags- og bygginganefndar í Hveragerði í gær.
Orkuveita Reykjavíkur starfrækir brennisteinsvetnismælistöð í Hveragerði og getur almenningur fylgst með niðurstöðum mælinga á vef Heilbrigðisstofnunar Suðurlands http://www.heilbrigdiseftirlitid.is