Slökkvilið Hveragerðis hefur sameinast Brunavörnum Árnessýslu en samningur þess efnis var undirritaður í Hveragerði í dag.
Stjórn Brunavarna Árnessýslu skrifaði undir samninginn ásamt Aldísi Hafsteinsdóttur bæjarstjóra í Hveragerði og Kristjáni Einarssyni slökkviliðsstjóra. Fulltrúar sveitarfélaganna sem standa að BÁ rituðu einnig á samningana en sameiningin verður að veruleika þegar allar sveitarstjórnir hafa staðfest samninginn.
Eyþór Arnalds, formaður stjórnar BÁ, sagði við þetta tilefni að lengi hafi verið vonast til þess að Hvergerðingar gengju inn í BÁ. Stjórn BÁ sjái fyrir sér að í framtíðinni verði um atvinnuslökkvilið að ræða og þessi sameining væri bautasteinn í átt að því að koma liðinu í fremstu röð.
Ánægja er meðal Hvergerðinga með sameininguna en Aldís Hafsteinsdóttir sagði í ávarpi sínu að sameiningin væri mjög stórt skref í átt að enn betri brunavörnum í Hveragerði. Það hafi verið öflugt slökkvilið í áratugi en sameiningin sé gerð í sátt við brunaverði í Hveragerði og sé gæfuspor fyrir þá.
Í máli Kristjáns Einarssonar, slökkviliðsstjóra, kom fram að Brunavarnir Árnessýslu vakti eignir sem nemi 117 milljörðum króna og BÁ er eitt best búna slökkvilið landsins.
Kristján sagði einnig að sameiningin hefði í för með sér breytingar fyrir brunaverði í Hveragerði sem verði nú kallaðir oftar út en horft er til þess að slökkviliðin á Selfossi, í Hveragerði og Þorlákshöfn verði öflug og samhent eining.