Meirihluti bæjarstjórnar Hveragerðis vill hefja viðræður við Orkuveitu Reykjavíkur um að kaupa aftur Hitaveitu Hveragerðis sem Orkuveitan keypti árið 2004.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, segir það óásættanlegt að íbúar Hveragerðis þurfi að taka á sig gjaldskrárhækkanir til að greiða niður bruðl í rekstri Orkuveitunnar.
Vegna hækkananna þurfa íbúar Hveragerðis að greiða 35% meira fyrir heita vatnið en áður. Grunnskólinn í Hveragerði þarf að greiða Orkuveitunni 600 þúsund krónum meira á ári vegna gjaldskrárhækkana.
Deilt var um kaup Orkuveitunnar á hitaveitu Hveragerðis á sínum tíma en OR greiddi 260 milljónir króna fyrir veituna. Aldís segir að Hvergerðingum hafi þótt þeir fá lítið fyrir Hitaveituna á sínum tíma og eins sé auðlindin til staðar í bæjarfélaginu. Það þurfi ekki að ganga lengi um bæinn til að koma niður á heitt vatn.