Kristjón Kormákur Guðjónsson hefur verið ráðinn ritstjóri Pressunnar. Kristjón hefur starfað hjá Vefpressunni síðan um mitt ár 2012, fyrst sem blaðamaður en hann var ráðinn sem fréttastjóri í maí í fyrra.
Kristjón hefur aðallega fengist við fréttaskrif fyrir Pressuna en einnig skrifað á Bleikt og Eyjuna.
Björn Ingi Hrafnsson verður útgefandi allra miðla Vefpressunnar, Pressunnar, Eyjunnar og Bleikt. Þá sér hann um sjónvarpsþáttinn Eyjuna á Stöð 2, auk þess sem hann mun leiða ný verkefni á vegum fyrirtækisins sem nánar verða kynnt á næstunni.
„Ég hlakka til að takast á við þessa áskorun. Jafnframt vil ég þakka Birni Inga Hrafnssyni fráfarandi ritstjóra og Arnari Ægissyni framkvæmdastjóra Vefpressunnar fyrir það traust sem þeir sýna mér með þessari ráðningu og þetta mikla tækifæri,“ segir Kristjón.
Kristjón bætir við að það sé hörkuvinna að stýra miðli sem alltaf er í loftinu en á Vefpressunni er afar öflug ritstjórn sem er alltaf á vaktinni.
„Það eru bæði spennandi og skemmtilegir tímar framundan og þetta er stærsta tækifæri mitt á ferlinum. Þetta leggst mjög vel í mig og ég hlakka til að spreyta mig á ritstjórnarhlutverkinu. Við munum halda áfram að bjóða upp á fjölbreytt hlaðborð af fréttum þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi“.
Kristjón hefur meðal annars fengist við skáldsöguskrif, blaðamennsku og handritaskrif. Hann er búsettur í Hveragerði ásamt sambýliskonu sinni og þremur dætrum.