Hvergerðingar fagna flýtingu framkvæmda

Frá framkvæmdum við tvöföldun Suðurlandsvegar í Ölfusi á liðnu sumri. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar í nóvember var rætt var um samgönguáætlun 2020-2024 er þar er gerð tillaga um að flýta mikilvægum samgöngubótum við Suðurlandsveg í Ölfusi.

Í fimm ára aðgerðaráætlun sem fylgir samgönguáætlun er gert ráð fyrir að úrbótum á Þjóðvegi 1 frá Kömbum að Biskupstungnabraut verði flýtt og þeim verði að fullu lokið á tímabilinu.

Bæjarráð Hveragerðis fagnaði þeirri áherslu á bætt umferðaröryggi sem tillagan felur í sér og því frumkvæði sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur sýnt í þessu mikilvæga máli.

„Óumdeilt er að Suðurlandsvegur milli Kamba og Selfoss er einn alhættulegasti vegkafli landsins og því er þessi framkvæmd löngu tímabær. Bæjarráð taldi því einboðið að ráðist yrði í alla framkvæmdina þar með talið frá Kömbum að Vármá eins fljótt og auðið er. Afgreiðslu bæjarráðs hefur verið komið á framfæri við ráðherra með þeirri einlægu ósk að landsmenn allir geti sem fyrst ekið um öruggan Suðurlandsveg,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.

Fyrri greinHekla sigraði á héraðsmótinu
Næsta greinNetkosning hafin á íþróttafólki ársins