Hvergerðingar ráða grjótharðan garðyrkjufulltrúa

Kristin var kosin harðasti iðnaðarmaður landsins árið 2018. Myndin er tekin af því tilefni. Ljósmynd/hveragerdi.is

Kristín Snorradóttir hefur verið ráðin tímabundið til tveggja ára í stöðu garðyrkjufulltrúa Hveragerðisbæjar.

Með þessu aukna stöðugildi er lögð enn ríkari áhersla en nú er á umhirðu og uppbyggingu grænna svæða í bæjarfélaginu. Slík áhersla er í fullu samræmi við stefnumörkun og vilja bæjarstjórnar sem ávallt hefur sett fallegt og vel hirt umhverfi í öndvegi.

Með tilkomu þessarar nýju stöðu mun starfsvið umhverfisfulltrúa og byggingar- og mannvirkjafulltrúa taka nokkrum breytingum en ljóst er að með stækkandi bæjarfélagi aukast umsvif á þessum sviðum mikið.

Kristín er skrúðgarðyrkjufræðingur frá LBHÍ og mun klára meistaranám sem slík núna í vor.  Hún hefur umtalsverða reynslu af garðyrkjustörfum og  hefur hún í mörg ár starfað hjá fyrirtækjum sem sjá um alla almenna garðavinnu og er því þaulvön slíkum störfum jafnt hjá sveitarfélögum sem og einstaklingum.

Því er við þetta að bæta að Kristín var kosin harðasti iðnaðarmaður landsins árið 2018 og ljóst að Hvergerðingar eru í góðum málum í garðyrkjudeildinni.

Fyrri greinSunnlenskar raddir syngja í fjarbúð
Næsta greinHægist á íbúafjölgun í Árborg