Hvergerðingar skipa afmælisnefnd

Hveragerði. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti á síðasta fundi sínum að stofna afmælisnefnd vegna 80 ára afmælis Hveragerðisbæjar á árinu 2026.

Í nefndinni eiga sæti Njörður Sigurðsson, fulltrúi meirihluta í bæjarstjórn, Magnús K. Hannesson, fulltrúi minnihluta í bæjarstjórn, og Pétur G. Markan, bæjarstjóri.

Þann 29. apríl 1946 hélt nýkjörin hreppsnefnd Hveragerðishrepps sinn fyrsta fund en daginn áður hafði verið kosið í fyrsta skipti í nýju sveitarfélagi.

Afmælisnefndinni er ætlað að gera tillögur til bæjarstjórnar um hvernig afmælinu verði fagnað á árinu 2026. Nefndin er skipuð nú svo hún geti fundað einu sinni á þessu ári og farið yfir hvort þörf sé á fjárveitingu á árinu 2025 til undirbúnings afmælisins og verði þá tekið tillit til þess við fjárhagsáætlunargerð.

Fyrri greinVetrarstarf Karlakórs Selfoss að hefjast
Næsta greinSöfnuðu 360.000 kr. fyrir Píeta samtökin