Vörubíll varð eldi að bráð á vinnusvæði efst í Bláfjöllum í gærkvöldi. Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu í Hveragerði voru kallaðir á vettvang og slökktu eldinn.
Útkallið barst Neyðarlínunni klukkan rúmlega ellefu í gærkvöldi og að sögn Halldórs Ásgeirssonar, aðalvarðstjóra Brunavarna Árnessýslu, var staðsetningin aðeins á reiki í upphafi þar sem fram kom að bíllinn væri fyrir ofan skíðaskálann.
„Það fóru því af stað bílar bæði frá Hveragerði og Þorlákshöfn og Hvergerðingarnir voru vel á veg komnir þegar kom í ljós að um var að ræða skíðaskálann í Bláfjöllum,“ sagði Halldór í samtali við sunnlenska.is. „Þeir héldu því á vettvang en það breytti ekki niðurstöðunni að bíllinn var alelda og ónýtur þegar að var komið,“ bætti Halldór við.
Bíllinn var mannlaus þegar eldurinn kom upp og engum varð meint af að sögn Halldórs.