Hvetja stjórnvöld til að hverfa frá boðaðri hækkun

Stjórn Markaðsstofu Suðurlands hefur sent fjármálaráðherra ályktun þar sem fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á gistingu er mótmælt.

Jafnframt hvetur stjórn Markaðsstofunnar þingmenn Suðurlands til að standa með sínu fólki og fyrirtækjum í fjórðungnum og taka afstöðu með þeim í þessu máli.

Ályktun frá stjórn Markaðsstofu Suðurlands

Markaðsstofa Suðurlands er samstarfsvettvangur fyrirtækja og sveitarfélaga á Suðurlandi. Markmið hennar er að styðja við markaðssetningu fyrirtækja í fjórðungnum og stuðla að meiri arðsemi í ferðaþjónustu á svæðinu. Mikilvægur liður í því er að lengja ferðamannatímann og viðkomu ferðamanna á Suðurlandi.

Á Suðurlandi höfum við glímt við þann vanda að gisting er mjög árstíðabundin. Á síðustu árum höfum við ráðist í átak til að lengja ferðamannatímann. Í því skyni höfum við kynnt ýmis tækifæri í ferðaþjónustu. Viðtökur hafa verið góðar en það leynist engum sem til þekkir að lítið má út af bregða ef kvikur markaður á borð við neytendur ferðaþjónustu á ekki að leita annað.

Hækkun virðisaukaskatts á gistingu er til þess fallin að grafa undan viðleitni Sunnlendinga til að laða ferðamenn að fjórðungnum. Ferðaþjónusta er hvarvetna einn helsti vaxtabroddurinn í efnahagslífi þjóða og hefur á undanförnum árum markað sér öruggan sess sem gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur með upp undir 20% af heildarútflutningstekjum.

Boðuð hækkun mælist hvarvetna illa fyrir í fjórðungnum þar sem fyrirtækin óttast mjög um afkomu sína og vaxtarmöguleika. Mörg hver réðust í mikla uppbyggingu meðan skilyrði voru til þess en róa nú þungan róður.

Stjórn Markaðsstofu Suðurlands hvetur stjórnvöld til að hverfa frá boðaðri hækkun virðisaukaskatts á gistingu og hvetur til að þau leggist frekar á árarnar með fyrirtækjum í ferðaþjónustu og geri þeim kleift að vaxa og dafna í viðkvæmu rekstrarumhverfi. Með því móti eru fyrirtækin mun líklegri til að skila til samfélagsins þeim tekjum sem kallað er eftir.

Því skorar stjórn Markaðsstofu Suðurlands á ríkistjórn Íslands að hverfa frá öllum áformum um hækkanir á virðisaukaskatti á gistingu.

Fyrri greinSækist eftir varaformannsstól
Næsta greinTöluverð aukning á hraðakstursbrotum