Bæjarstjórn Árborgar lýsir yfir áhyggjum af stöðu samningaviðræðna við tónlistarkennara og áhrifum þess á tónlistarnám í sveitarfélaginu.
Í ályktun sem samþykkt var samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær kemur fram að bæjarstjórn hafi miklar áhyggjur af því að nemendur fari á mis við það stöðuga aðhald og leiðsögn sem sérfræðingar í tónlistarkennslu geta einir veitt.
„Það er einnig ófyrirséð hver áhrif langvarandi verkfalls geta orðið en mikil hætta er á að nemendur gefist upp á náminu og brottfall verði umtalsvert. Bæjarstjórn hvetur samningsaðila til að ræða saman og leita leiða til að ná samningum sem allra fyrst svo núverandi verkfall valdi sem minnstum skaða fyrir nemendur og hið góða starf sem unnið er í Tónlistarskóla Árnesinga og Tónsmiðju Suðurlands,“ segir í ályktuninni sem Arna Ír Gunnarsdóttir, fulltrúi S-listans, lagði fram.