Hvetur samningsaðila til að leita lausna sem fyrst

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar hvetur samninganefndir ríkisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands til þess að leita lausna í þeirri kjaradeilu sem uppi er svo skrifa megi undir nýja kjarasamninga sem allra fyrst.

Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnar sem samþykkt var á fundi hennar í gær.

„Nú lítur út fyrir að nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurlands verði fyrir miklum áhrifum vegna verkfalls og er það áhyggjuefni. Bæjarstjórn leggur því áherslu á að viðunandi samningar náist fyrir alla aðila. Kennarar sinna mikilvægum störfum í leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskólum sem eru ein af grunnstoðum samfélagsins. Horfa þarf til framtíðar, skapa aðlaðandi og faglegt starfsumhverfi í skólunum og gera um leið sveitarfélögum kleift að standa undir þeirri þjónustu sem þeim ber að veita,“ segir í bókuninni sem samþykt var samhljóða af bæjarstjórn.

Fyrri greinTveimur deildum á Óskalandi lokað vegna E.coli-smits
Næsta greinBrúarsmiðurinn