
Vatnshæð í Hvítá hefur hækkað mikið í dag og síðdegis fór hún að flæða framhjá Flóaveitustíflunni og ofan í Flóaáveituskurðinn.
Ísstífla hefur verið að byggjast upp í ánni við Brúnastaði undanfarna daga. Frost minnkaði nokkuð snögglega á svæðinu síðdegis í dag sem getur hafa orsakað þessa snöggu breytingu á flæði. Frost tekur aftur að herða í nótt og enn frekar um helgina.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að erfitt sé að spá fyrir um þróunina á svæðinu en Veðurstofan fylgist áfram náið með í samstarfi við Almannavarnir og lögregluna á Suðurlandi á svæðinu. Lögreglumenn eru á leiðinni á staðinn að kanna aðstæður nánar og fólk á svæðinu er beðið um að hafa aðgát við árfarveginn og fylgjast með frekari fréttum af stöðunni.


