Blindrafélagið hefur sett á fót hjálpartækjaleigu en sl. miðvikudag var fyrsta leigutækið afhent í Hvolsskóla.
Tækið sem sett var upp í skólanum er stækkari sem stækkar upp texta á blöðum og í bókum og getur jafnframt stækkað það sem skrifað er á töfluna eða annað í kennslustofunni.
Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, sagði í samtali við sunnlenska.is gera ráð fyrir að vegna mikils niðurskurðar í skólakerfinu sem og annarstaðar komi þjónusta hjálpartækjaleigunnar til með að nýtast skólum landsins sérlega vel.
„Það er talsvert auðveldara fyrir skólana að leigja tæki þegar á þarf að halda í stað þess að fjárfesta í tilskyldum búnaði. Hjálpartækjaleigan auðveldar þannig skólum landsins að uppfylla lagalegar skyldur sínar gagnvart blindum og sjónskertum nemendum og tryggja jafnt aðgengi þeirra að menntun,“ sagði Kristinn Halldór.