Óstofnað hlutafélag, sem Jóhannes Kristjánsson, Sigurður Elías Guðmundsson og Örn Sigurðsson standa að, hefur fengið úthlutað tveimur fimm íbúða raðhúsalóðum í Vík.
Lóðirnar sem um ræðir eru milli Sunnubrautar og Mánabrautar, annað húsið mun snúa að Mánabraut og hitt að Sunnubraut. Fimm 90 fermetra íbúðir verða í hvoru húsi.
Jafnframt fór félagið fram á að sveitarstjórn samþykkti að sem fullnaðargreiðsla fyrir gatnagerðargjöld ásamt tengingu á vatni og fráveitum lóðanna kæmi ein íbúð fullbúin að utan með grófjafnaðri lóð. Félagið stefnir á að því að selja íbúðirnar nálægt kostnaðarverði og er markmiðið að mæta þeirri eftirspurn sem er eftir húsnæði og gera fólki kleyft að flytja í Mýrdalinn.
Sveitarstjórn samþykkti að úthluta félaginu lóðinni og auk þess að kaupa eina af raðhúsaíbúðunum á kostnaðarverði. Væntanlegur kaupsamningur verður lagður fyrir sveitarstjórn til samþykktar.
Sigurður Elías Guðmundsson, fulltrúi B-lista, vék af fundinum á meðan málið var afgreitt, vegna vanhæfis.