Hyggjast opna veitingastað á Kili

Loftur Jónasson og Vilborg Guðmundsdóttir í Myrkholti hafa í hyggju að reisa veitingaskála í Árbúðum á Kili og eiga nú í samningaviðræðum við Bláskógabyggð vegna þessa.

Stefna þau á að reisa 80 fm hálendismiðstöð, til mótttöku ferðamanna og sölu veitinga í Árbúðum, sem opni í sumar.

Sagði Loftur í samtali við Sunnlenska að málið væri enn á vinnslustigi þar sem ekki væru öll leyfi fengin en hann staðfesti að málið væri unnið í góðu samstarfi við sveitarfélagið.

Ástæðu þess að þau Vilborg eru að auka umsvif sín segir Loftur vera þau, að reiknað sé með að ferðamannastraumur um Kjöl aukist í sumar vegna siglinga á Hvítárvatni. Til að flýta fyrir opnun miðstöðvarinnar þá verður hugsanlega helmingur fyrirhugaðs húsnæðis reistur í byggð og fluttur í Árbúðir, fáist stöðuleyfi fyrir það í sumar segir Loftur.

Árbúðir eru skilgreindar sem hálendismiðstöð og sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir því ekki athugasemd við rekstur veitingastaðar þar. Byggðaráð sveitarfélagsins hefur líka samþykkt samhljóða að ganga til samninga við fyrirtæki Lofts og Margrétar, Gljástein ehf.

Fyrri greinViðbúnaðarstig lækkað
Næsta greinSigurlín sýnir í Tré og list